Eftirtalin skjalasöfn verða með opið hús á skjaladeginum, eða bjóða upp á sýningar sem tengjast deginum.

 

Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162, 105 Reykjavík

Þjóðskjalasafn Íslands verður með opið hús á lestrarsal safnsins. Verður tekið á móti gestum frá kl. 13-16 á Laugavegi 162, laugardaginn 8. nóvember. Þar verður boðið upp á sýningu á skjölum sem tengjast Vesturheimsferðum og gestum gefinn kostur á að glugga í bækur um Vesturfara. Kl. 14:30 munu Svavar Gestsson og Katelin Parsons kynna verkefnið: Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, sem er samstarfsverkefni Þjóðræknisfélags Íslendinga og Árnastofnunar.

Héraðsskjalasafn Akraness
Dalbraut 1, 300 Akranes

Á skjaladeginum verður opin sýning um 150 ára sögu Bókasafns Akraness að Dalbraut 1 kl 11:00 – 14:00. Sýningin er samstarfsverkefni Bókasafns, Héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns Akraness.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu
Miðbraut 11, 370 Búðardalur

Sýning og spjall á Byggðasafninu á Laugum sunnudaginn 9. nóvember kl 14:00 – 17:00.

Héraðsskjalasafnið Ísafirði
Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður

„mjer þikir heldur sárt að vita þig verða eptir þegar við ætlum að halda hóp …“ er yfirskrift sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum laugardaginn 8. nóvember. Sýnd verða skjöl og myndir tengdar Vesturförum, sem eru þema skjaladagsins að þessu sinni. Sendibréf úr fórum Björns Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði eru sérstaklega til umfjöllunar, en þau eru skrifuð af móður hans og öðrum ættmennum frá Þorpum við Steingrímsfjörð sem fluttu til Ameríku sumarið 1883.

Sýningin er í Safnahúsinu við Eyrartún, Gamla sjúkrahúsinu, á Ísafirði og verður hún opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl. 13 til 18 á virkum dögum og kl. 13 til 16 á laugardögum.

Héraðsskjalasafn Fjallabyggðar
Gránugötu 24, 580 Siglufjörður

Skjalasafnið verður opið kl 13:00 – 16:00 á skjaladeginum. Gamlar ljósmyndir liggja frammi og fólk er beðið um að bera kennsl á fólk á myndunum. Gömul skjöl er varða bæjarfélagið verða sýnd. Þar má nefna gamla kosninga- kynningar- og málefnabæklinga, framboðslista og þ.h.

Héraðsskjalasafn Þingeyinga
Safnahúsið, Stóragarði 17, 640 Húsavík

Skjalasafnið verður lokað á skjaladeginum, en frá og með 7. nóvember til og með 14. nóvember mun rit Eysteins Tryggvasonar „Þingeyskir Vesturfarar á árunum 1860 til 1920“ vera aðgengilegt á lestrarsalnum og einnig verða myndir af fólki í ritinu til sýnis.

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja
Safnahúsið við Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar

Til tilefni heimsóknar bæjarstjórans í Spanish Fork og Dr. Fred Woods til Eyja helgina 7. – 10. nóvember og norræna skjaladagsins verður sett upp sýning á skjölum, ljósmyndum og munum tengdum vesturförunum frá Eyjum í Einarsstofu í Safnahúsinu og verður hún opin á opnunartíma hússins út nóvembermánuð 2014.