Menn trúðu því forðum, um straum-barða strönd
þó stormurinn heima við bryti,
að fjarst út’ í vestrinu lægju þó lönd
þar logn eða sólskin ei þryti,
því þar hefði árgæskan friðland sér fest
og frelsið og mannúðin — alt sem er best.…
Stephan G. Stephansson úr ljóðinu Kanada
Skjaladagurinn árið 2014 er helgaður vesturförum. Í skjalasöfnum er varðveitt mikið magn heimilda sem snerta þennan merkilega þátt Íslandssögunnar. Þar eru sendibréf, dagbækur, ljósmyndir og endurminningar fjölmargra einstaklinga sem tóku sig upp og fluttu til fjarlægs lands. En skjalasöfnin geyma líka heimildir um ástæður flutninganna – upplýsingar um tíðarfar og harðindi, fátækt, boð og bönn, sem voru að hluta til ástæða þess að margir ákváðu að freista gæfunnar í nýju landi. Kirkjubækur, manntöl, skipaskrár, flutningsskýrslur og fleiri opinberar heimildir fylla enn upp í myndina og þegar allt er saman tekið er óhætt að fullyrða að skjalasöfnin séu rík af heimildum hvað þetta varðar.
Í skjalasöfnum er þannig geymdur efniviður sem margir hafa nýtt sér við rannsóknir á vesturförunum en margt er eftir óunnið og ekki öll kurl komin til grafar. Tilgangur þess að skjaladagurinn er að þessu sinni helgaður vesturförunum er ekki síst að benda á ýmsar heimildir sem gætu verið gagnlegar fyrir þá sem vilja fræðast nánar um þessa sögu hvort sem það er í þeim tilgangi að leita ættingja eða vinna umfangsmeiri rannsóknir.
Í tilefni dagsins eru hér af vefnum allmörg innslög frá fjölmörgum héraðsskjalasöfnum vítt og breytt um landið auk efnis frá Þjóðskjalasafni Íslands. Hér er einungis um sýnishorn að ræða sem við vonum að veki áhuga þeirra sem vefinn skoða, en ef spurningar vakna mun starfsfólk safnanna vera fúst til að veita svör eftir bestu getu.