Í fjölmörgum rannsóknum sem hafa verið unnar um ástæður þess að Íslendingar fluttu í stórum hópum til Vesturheims er yfirleitt getið um almenn harðindi á Íslandi, hafís, eldgos í Öskju 1875, skort almennings á jarðnæði og hversu sjálfstæðistilburðir Íslendinga gengu hægt.

Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir margvíslegar heimildir sem varða þessa þætti, sérstaklega hvað varðar harðindi og eldgos. Embættismenn rituðu bréf sín á milli, spurðu frétta og reyndu að aðstoða íbúa af veikum mætti.

Sýslumaðurinn og bæjarfógeti Eskifirði OB/1 Eldgosið 1875 og hjálparstarf vegna þess. Skýrslur búenda um tjón vegna gossins
Sýslumaðurinn og bæjarfógeti Eskifirði OB/1 Eldgosið 1875 og hjálparstarf vegna þess. Skýrslur búenda um tjón vegna gossins.

Bændur í Reyðarfirði fóru ekki varhluta af öskufalli í Öskjugosinu sem hófst í byrjun árs 1875 og stóð fram eftir árinu. Gríðarlegt sprengigos hófst í marsmánuði með svo miklu ösku- og vikurfalli að á sumum stöðum  á Jökuldal mældist þykkt öskunnar allt að 20 cm og víða á Norður- og Austurlandi urðu bændur og búalið fyrir miklum búsifjum.  Í skýrslu Eyjólfs Þorsteinssonar (1825-1900) bónda að Stuðlum í Reyðarfirði, er getið um margvíslegt tjón hans. Hafði hann sex menn í 36 daga að hreinsa sand af túnum. Búfé þurfti hann að koma í aðrar sveitir, þar til gróður kom upp í heimalandinu og hey ónýttust. Þá gat hann í skýrslu sinni sem hann ritaði í júnímánuði 1876 um annan kostnað þessu samfara:

Skó fata slit fram yfir hið vanalega í stað þess að dugað hafa áður 44 króna virði í plöggum „sokkum, leistum og spjörum“ handa fólki mínu; hafa nú valla endst 66 króna virði, verður þó mismunur á þeim kostnaði.

Taldi Eyjólfur að heildarskaði hans næmi tæplega 2.113 krónum en svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki tekið til greina sumar kröfur hans, svo sem um slit á fötum og mátu tjónið á ríflega 954 krónur.  Bændur í Reyðarfirði fengu, eins og aðrir á hamfarasvæðnum, úthlutað gjafakorni til að mæta þeim hörmungum sem á þeim dundu en virði þess nam þó engan veginn kostnaðinum sem þær ollu.

Þó heimili í Reyðarfirði hefðu orðið fyrir búsifjum urðu þær yfirleitt ekki til þess fólk þar flyttist úr landi. Eyjólfur bjó áfram á Stuðlum ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur og síðar í Ásunnarstaðastekk í Breiðdal en eitt barna þeirra, Páll, fór til Vesturheims árið 1883 ásamt konu sinni og börnum og settist að í Norður-Dakota en flutti síðar til Saskatchewan í Kanada.

Auglýsing frá Kanadastjórn um ókeypis land. Almanak Ólafs Thorgeirssonar
Auglýsing frá Kanadastjórn um ókeypis land. Almanak Ólafs Thorgeirssonar.

Talið er að Öskjugosið 1875 hafi beint eða óbeint leitt til þess að mikill fjöldi fólks flutti úr Norður-Múlasýslu til Vesturheims. Á hitt ber þó einnig að líta að kuldar og hafís koma sérstaklega illa við það landsvæði og að vegna landþrengsla hafði byggð teygt sig til fjalla og heiða, á staði sem vart voru byggilegir í góðum árum, hvað þá þeim erfiðu.

Heimildir

Sýslumaðurinn og bæjarfógeti Eskifirði OB/1 Eldgosið 1875 og hjálparstarf vegna þess.

Þjóðskjalasafn Íslands