Árið 1892 gaf Baldvin L. Baldvinsson út hagskýrslur frá Íslendingabyggðum í Kanada. Skýrslunar eru gríðarlega merkileg heimild um búskap íslenskra innflytjenda. Þær gáfu yfirlit yfir búskap á 636 bændabýlum, þar sem yfir 3000 manns bjuggu. Ekki náðu skýrslurnar yfir alla bændur af íslenskum ættum í Kanada, en Baldvin taldi sjálfur að þeir væru um eða yfir 720. Samkvæmt skýrslunum höfðu þessir 636 íslensku bændur í Kanada plægt tæplega 11.000 ekrur lands, áttu tæplega 3000 kýr, tæplega 500 hesta og um 4500 kindur. Þá áttu þeir ríflega 500 svín og um 6500 alifugla. Baldvin taldi að árlegur gróði hvers búanda væri að jafnaði um 370 dollarar eða tæplega 1300 krónur.
Skýrslunni lét Baldvin dreifa um landið og þótti andstæðingum Vesturheimsferða nóg um. Baldvin var á þessum tíma launaður erindreki kanadísku stjórnarinnar og hafði að starfa að hvetja Íslendinga til farar vestur. Sú staðreynd varð auðvitað til þess að margir tortryggðu skýrslurnar og töldu að um áróðursplagg væri að ræða sem væri rangt í öllum megin atriðum. Skýrslurnar voru þannig olía á þann eld sem brann á síðum fréttablaða á Íslandi undir lok 19. aldar.
Baldvin sagði sjálfur að hann hefði heimsótt hvern einstakan landnema, og gert skýrslur yfir eignir þeirra og skuldir. Hvort sem tölur voru algjörlega réttar eða ekki þá gefa skýrslurnar mynd af búskap landnemanna á ákveðnum tíma, auk fjölbreyttra annarra upplýsinga. Skýrslurnar, sem dreift var með blaðinu Fjallkonunni á Íslandi, hafa verið lesnar af athygli á mörgum heimilum og efalítið hafa sumir leitað að gömlum nágranna til að sjá hvernig honum hafi vegnað í fjarlægu landi.
Í þriðju skýrslu frá Red-Deer nýlendunni í Alberta má sjá nafn þekkts Íslendings, Stephans G. Stephanssonar. Hafði hann tekið sér land árið 1889. Átta manns voru í heimili og hafði hann ræktað fimm ekrur lands, tvær fyrir hafra og tvær fyrir bygg, en eina ekru hafði hann fyrir matjurtir. Átti hann þrjár kýr, uxa tvo, þrjú ungneyti, einn hest, þrjár kindur og eitt svín auk 15 alifugla.
Í tilefni af skjaladegi 2014 eru hagskýrslur Baldvins birtar í heild á vef Þjóðskjalasafns auk athugasemda við skýrslurnar og svari Baldvins við þeim.
Baldvin Lárus Baldvinsson fæddist á Akureyri árið 1856 en fluttist til Kanada með fyrstu útflytjendunum árið 1874. Hann varð fljótt áhrifamikill í íslenska samfélaginu í Winnipeg. Starfaði hann fyrir kanadísku stjórnina frá 1883-1896 og árið 1898 stofnaði hann blaðið Heimskringlu, sem hann ritstýrði til ársins 1913. Baldvin var þingmaður í Winnipeg í 12 ár og síðar aðstoðarráðherra. Hann lést í Kaliforniu árið 1936.
Heimild
ÞÍ. Stjórnarráð Íslands, Hagskýrslur úr Íslendingabyggðum i Kanada.
Þjóðskjalasafn Íslands
Comments by benedikt