Þórey Jónsdóttir og Sigfús Jónas Hallgrímsson voru gefin saman í Bakkakirkju í Öxnadal 24. júní 1874. Jónas hafði átt heima á Bakka lengi. Hann fluttist þangað með foreldrum sínum 1854 en nú var faðir hans, Hallgrímur Kráksson, látinn og Jónas bjó með móður sinni Rósu Jónsdóttur. Þórey ólst upp hjá ættingjum sínum á bænum hinu megin við ána, á Steinsstöðum. Eftir að Jónas og Þórey giftust var Jónas skráður fyrir búinu, ásamt móður sinni, og smátt og smátt stækkaði hans hluti búsins og þegar Rósa lést var búið alfarið á nafni Jónasar.
Eldri sonur Þóreyjar og Jónasar fæddist 20. mars 1875. Hann var skírður Hallgrímur. Rúmu ári síðar fæddist svo Stefán Jón eða 29. maí 1876 og dóttirin Rósa fæddist árið 1879. Um haustið 1882 dóu tvö þessara barna, Rósa lést 31. október og Hallgrímur 25. nóvember. Sama dag og Rósa kvaddi þennan heim fæddist önnur dóttir sem fékk nafn þeirrar eldri.
Jónas og Þórey fluttu til Ameríku árið 1883, með börnin sín tvö Stefán Jón og Rósu. Í maí 1883 var haldið uppboð á Bakka þar sem ýmsir búshlutir voru seldir.
Heimildir
- Kirkjubækur á Bakka og Bægisá.
- H-7/ 5 Skriðuhreppur. Hreppsbók 1865-1881.
- H-7/6 Skriðuhreppur. Hreppsbók 1881-1896.
- H-7/14 Skriðuhreppur. Uppskrifta- og uppboðsbók 1881-1889.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Comments by benedikt