Sumarið 1882 var ekki neitt dæmigert sumarveður, tíu sinnum var alsnjóa frá Jónsmessu til rétta og segja má að einn samfelldur stórhríðarbálkur, sem aldrei linnti nema fáa daga í mánuði.

Hafís lá frá Straumnesi í Aðalvík allt austur með Norðurlandi, samfrosta uppí hverja á og hvern lækjarós, og suður með landinu að austan allt vestur undir Dyrhólaey. Víða var algert bjargarleysi, talið er fjárfellir hafi verið um þriðjungur. Ástandið ýtti ekki undir bjartsýni á framtíðina.

Blönduós var ungur bær 1883, í manntali 1880 var aðeins einn íbúi skráður þar með aðsetur en upp úr því fjölgaði nokkuð ört. Einn af frumbyggjunum var Jón Gíslason (1852-1940) vert og kennari á Blönduósi og kona hans Elísabet Jónsdóttir (1856-1917). Jón var fæddur á Ásum í Svínadal,  en flutti á Blönduós 1881 og gerðist þar vert ásamt Jóhannesi Jasonarsyni frá Borðeyri, báðir fluttu þeir vestur um haf 1883. Elísabet var fædd á Björnólfsstöðum í Langadal, áður hafði Jón eignast barn með Guðríði Guðmundsdóttur vk á Eyvindarstöðum 1876.

Vestanhafs tók hann upp ættarnafnið Gillies. Jón og Elísabet eignuðust 8 börn og þar af eitt hérlendis.

Elísabet Jónsdóttir Gillies (1856-1917). Ljósm. Bryant Studio.
Elísabet Jónsdóttir Gillies (1856-1917). Ljósm. Bryant Studio.

Elísabet varð bráðkvödd á heimili sinu í  Selkirk og var jarðsett þar 5. Des 1917, Jón lést hinsvegar í hárri elli á Gimli í janúar 1940, bræður hans Erlendur og Jóhannes fluttu einnig vestur.

Alfred sonur þeirra tók þátt í styrjöldinni miklu, særðist í Frakkland, kom aftur til Kanada 1919 og dó stuttu síðar á sóttarsæng.

Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu