Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna lítið bréfasafn (E-1122/26 – Helgi Pétursson Steinberg Vesturfari). Í safninu eru fjórtán bréf sem Helgi skrifaði til bróðursonar síns, Péturs Jónssonar í Árhvammi í Laxárdal, 1954-1965, en Kristín Steinberg kona hans skrifaði síðustu bréfin.

Pétur Jónsson í Árhvammi í Laxárdal
Pétur Jónsson í Árhvammi í Laxárdal.

Helgi Pétursson Steinberg var fæddur í Mjóadal fram af Bárðardal 21. janúar 1876. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Sigríður Jósefdóttir og Pétur Pétursson bóndi á Narfastöðum, Mjóadal og Stórulaugum. Helgi var fyrst kallaður Guðjónsson, en Pétur faðir hans gekkst ekki við honum fyrr en Helgi var orðinn fulltíða maður. Kona Helga var Kristín Kristjánsdóttir f. 25. júlí 1889. Helgi og Kristín byrjuðu búskap á Hrafnagili í Eyjafirði, en fluttu til Vesturheims árið 1910. Helgi var bóndi í Foam Lakebyggð í Sask. 1910-1942, en síðan í White Rock í Bresku Columbíu í Kanada. Hann dó 3. október 1961.

Bréf Helga Péturssonar Steinberg til Péturs Jónssonar
Bréf Helga Péturssonar Steinberg til Péturs Jónssonar.

Í bréfi til Péturs árið 1954 skrifar Helgi.

„Mér þykir vænt um að heyra að ykkur líður vel og þið drífið búskapinn af krafti, því það er erfitt að stofna nýbýli, efnalítill með stóra familíu, en þegar blessuð börnin koma til hjálpar fer oftast ögn að lagast, en róðurinn er oftast þungur í byrjuninni. Mér þykir vænt um að heyra hvað familíurnar halda hópinn, bæði hjá þér og í Stafni.“

Héraðsskjalasafn Þingeyinga