Á vordögum 1865 hugði stór hópur Norðlendinga á langferð þar sem ætlunin var að flytja búferlum frá Íslandi til Brasilíu. Höfðu þeir ýmsir sagt jarðnæði sínu lausu eða sagt sig úr vist. Ferðin var undirbúin af Einari Ásmundssyni í Nesi, þekktum framámanni í héraði og varaþingmanni. Árið 1860 var stofnað félag sem hafði að markmiði að aðstoða fólk við flutning til Brasilíu og fimm árum síðar var hugað að brottför allt að 150 manns, flestum úr Þingeyjarsýslu.
Svo óhönduglega tókst til að ekki tókst að fá skip til fararinnar til Brasilíu og sátu bændur og búalið eftir með sárt ennið og þurftu að grípa til ýmissra ráða til að útvega sér jarðnæði á nýjan leik eða ráða sig í vinnumennsku eða til annarar atvinnu. Þetta brölt landsmanna fór ekki fram hjá yfirvöldum. Pétur Hafstein amtmaður á Möðruvöllum ritaði á vordögum bréf til sýslumanna sinna, þar sem hann fór fram á að gerð yrði rannsókn á því hvort skrif Einars hafi orðið til þess að menn flosnuðu upp frá jörðum sínum og jafnvel farið á vergang og leitt þannig yfir sig meiri hörmungar en illt árferði og harðindi höfðu þó lagt á fólk.
Sýslumaður Þingeyinga yfirheyrði Einar sjálfan vegna málsins og ritaði Einar svar við spurningum sýslumanns sem lagt var fyrir rétt 15. júní 1867. Var það hans varnarskjal:
Tildrög fyrirtækisins álít jeg þau, að mörgum hjer í nálægum hjeruðum hefir lengi þótt erfitt að leita atvinnu fyrir harðindi og aðrar bágar kringumstæður. Fyrir 20-30 árum áformaði margt manna að flytja sig til Grænlands, sem þó fórst fyrir. Þegar harðna tók í ári, og einkum þegar fjársýkin fór að breiðast úr um landið, og útgjöldin að verjast henni urðu svo gífurleg, þá vaknaði sama löngun, að komast af landi burt,
Þá stofnuðu fáeinir menn fjelagsskap til að kynna kringumstæðurnar í þeim löndum hins nýja heims er menn almennt flytja sig til frá Norðurálfu, skutu saman fje til að kaupa landabrjef, bæ[?] blöð á ýmsum málum í þessum tilgangi.
…
Þeir í fjelagsskapinn gengu, og það voru 51 er lögðu til 4 dali hver, eitt sinn fyrir öll. Þessu fje hefur öllu verið varið til að kaupa fyrir landabrjef og blöð og styrkja Jónas snikkara Hallgrímsson til ferðar til Vesturheims, ásamt fleira er fjelagsmenn hafa ákveðið og samþykkt.
Mjer er ekki kunnugt um að neinn hafi orðið hreppsþurfamaður vegna ferðaáforms til Vesturheims og heldur ekki orðið fyrir verulegu eignatjóni út af hinu sama.
Staddur að Laufási 15. Júní 1867
Einar Ásmundsson[1]
Framburðir annara vitna í málinu vísuðu í svipaða átt. Fæstir töldu sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna ferðaáformanna. Engu að síður ritar amtmaður bréf sumarið 1869 til sýslumanns Þingeyinga þar sem hann hvatti hreppsnefndir til að fara í mál við Einar og að sýslumaður leggi löghald á eigur hans. Málið virðist þó hafa fallið um sjálft sig enda hófust umfangsmiklir flutningar til Vesturheims nokkrum árum síðar. Talið er að af þeim mikla fjölda Íslendinga sem fluttu til Vesturheims hafi ríflega 30 flust til Brasilíu.
Sennilegt má telja að ef Brasilíustjórn hefði sent skip til Íslands sumarið 1865 eins og um var rætt, hefði fjöldi manns fluttst til Brasilíu og landið keppt við Norður-Ameríku um hylli útflytjenda.
[1] Þsk Dómsmálabók Þingeyjarsýslu GA/5 [laus blöð í bók]
Þjóðskjalasafn Íslands
Comments by benedikt