Þann 7. nóvember 1910 sendi Ingibjörg H. Jakobson systur sinni Dagbjörtu Böðvarsdóttur bréf frá Kanada. Þar kennir ýmissa grasa, t.d. kemur fram að dætur Ingibjargar hafi starfað sem vinnustúlkur á heimilum í Winnipegborg og hafi haft 12-15 dali í mánaðarkaup og að þeim þyki sú vinna skemmtilegri en sú sem boðist hafi á landsbyggðinni. Ein dóttir hennar var á þessum tíma við kennaranám í háskóla og í bréfinu kemur fram að fæðiskostnaður hennar sé 16 dalir á mánuði. Þarna er auk þessa ýmislegt m.a. um bústofn og landbúnaðartæki. Lokaorð bréfsins eru hjartnæm kveðja auk þess sem Ingibjörg tekur fram að sé systir hennar ekki á lífi þá eigi dætur hennar að fá peninga sem fylgi bréfinu.

Þann 11. apríl 1911 skrifaði Ingibjörg Dagbjörtu aftur. Í bréfinu kemur fram að Ingibjörg velkist í vafa um hvort hún eigi að ráðleggja systur sinni að flytjast vestur, en afræður að leggja það ekki til af þeirri ástæðu að margir sem það hafi gert hafi orðið fyrir vonbrigðum og átt í basli. Böðvar sonur Ingibjargar mun hafa ritað bréfið fyrir hana og þarna kemur líka fram að yngri dóttir Dagbjartar hafi skrifað bréf fyrir hana sem Ingibjörg fékk sent. Stutt athugasemd fylgir að tveir dalir fylgi bréfinu sem Dagbjört geti keypt sér kaffi og sykur fyrir.

Framangreind skjöl bárust Borgarskjalasafni árið 2004 og tilheyra einkaskjalasafni nr. 317. Dagbjört Böðvarsdóttir var fædd í Örnólfsdal í Þverárhlíð árið 1858. Hún var gift Pétri Lúðvíkssyni Blöndal, fæddum í Hvammi í Vatnsdal árið 1850. Þau bjuggu á Tungu í Vatnsnesi.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur / Þorgeir Ragnarsson