Í rúma þrjá áratugi skrifaði Kristleifur Þorsteinsson (1861-1952), bóndi og fræðimaður á Stóra-Kroppi í Reykholtsdal, fréttabréf úr Borgarfirði, sem birtust í Lögbergi, sem gefið var út á íslensku í Winnipeg.
Tildrög fréttabréfanna voru þau að á árunum 1882-1900 fóru margir Íslendingar til Ameríku og Kristleifur hafði tekið saman fjölda þeirra, sem fóru úr heimasveit hans, Reykholtsdalnum og Hálsasveit, og reyndust það vera um 120 manns. Var það Kristleifi mikið hjartans mál að rækja tengsl á milli þeirra sem heima voru og þeirra sem höfðu farið af landi brott. Marga af þeim hafði Kristleifur þekkt og margir þeirra voru honum skyldir.
Fréttabréfin fluttu helstu fréttir úr héraði, þó aðallega úr uppsveitum Borgarfjarðar og sögðu frá tíðarfari, heilsufari manna og dýra, mannslátum, framkvæmdum, menntun og menningu og öllu því helsta sem til bar.
Fréttabréfin urðu til þess, að afla Kristleifi margra vina Vesturheimi og margir þeirra skrifuðu honum bréf á móti. Nokkur þeirra bréfa eru varðveitt í einkaskjalasafni Kristleifs Þorsteinssonar í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.
Heimildir
- Kristleifur Þorsteinsson. 1966. „Fréttabréf úr Borgarfirði“. Þórður Kristleifsson safnaði og bjó til prentunar. Reykjavík.
- Kristleifur Þorsteinsson. 1930. „Fréttabréf að heiman“. Lögberg. 18. desember.
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Comments by benedikt