Svavar Tryggvason var fæddur í Reykjavík þann 24. apríl 1916. Hann fluttist vestur um haf til Kanda árið 1953. Hann átti átta börn, öll fædd á Íslandi nema tvö. Svavar útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands og síðan frá Stýrimannaskólanum. Hann stundaði sjómennsku og var á togurum en þegar síldin brást ár eftir ár og fyrsta þorskastríðið skall á, gat hann ekki lengur unnið fyrir fjölskyldunni. Þá var hann kominn með átta manna fjölskyldu og braggar voru eina húsnæðið sem stóð þeim til boða. 37 ára gamall sagði Svavar: „Ég er farinn“ og fluttist til Kanada.

Lífið vestanhafs var oft erfitt fyrstu árin. Svavar starfaði í fyrstu við ýmis störf í Kanada en síðar sem stýrimaður og skipstjóri á 100 tonna togara. Loks gerði hann sjálfur út 10 tonna bát þar til heilsa hans gaf sig.

Svavar Tryggvason fyrir utan hús sitt í Kanada árið 1994
Svavar Tryggvason fyrir utan hús sitt í Kanada árið 1994.

Svavar og kona hans Sveinbjörg Haraldsdóttir áttu átta börn og komust sjö þeirra á legg. Meðal barna þeirra er Bjarni Tryggvason geimfari. Þau hjónin hvöttu börn sín til að fara í háskólanám og sagði Svavar í viðtali við Morgunblaðið 2. apríl 2005 „… þau hafa öll spjarað sig vel, verið upp í 10 ár í háskólum og fengið ýmsar gráður. Bjarni lék sér aldrei eins og aðrir krakkar heldur var hann alltaf að búa til flugvélar. … Ég hvatti hann til þess að fara í flugherinn til þess að læra að fjúga og ég var alltaf hlynntur því að hann færi út í geiminn.“

Umslag með frímerki með mynd af Bjarna Tryggvasyni geimfara
Umslag með frímerki með mynd af Bjarna Tryggvasyni geimfara, syni Svavars Tryggvasonar. Kanadíska póstmálastofnunin gaf út frímerkjastæðu til heiðurs kanadísku geimferðastofnuninni og átta kanadískum geimförum sem hafa verið sendir út í heim og er Bjarni einn þeirra, en hann fór í geimferð árið 1997.

Svavar kom nokkrum sinnum í heimsókn til Íslands og talaði og skrifaði góða íslensku. Hann hélt sambandi við fjölskyldu sína með bréfskiptum og símtölum og las íslensk dagblöð þegar hann komst í tæri við þau. Hann gat þó ekki hugsað sér að flytja aftur til Íslands. Svavar lést 7. maí 2005 í Barnaby, útborg Vancouver á vesturströnd Kanada, 89 ára að aldri.

Theodór Nóason afhenti skjöl varðandi Svavar Tryggvason og Bjarna son hans til varðveislu á Borgarskjalasafni Reykjavíkur vorið 2006.

Heimildir meðal annars

  • Frétt um andlát Svavars. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1016754/.
  • „Sjómaðurinn í skugga geimfarans“. Viðtal við Svavar í Morgunblaðinu 2. apríl 2005, bls 30.
  • „Á ekkert föðurland“. Viðtal við Svavar í Degi 23. júlí 1999, forsíðu.
  • Skjöl í safni Bjarna Tryggvasonar, nr. E-305 á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur / Svanhildur Bogadóttir