Einar Bjarnason Vestmann fluttist á samt konu sinni Guðríði Nikulásdóttur til Kanada árið 1912. Í Kanada eignuðust þau börnin sín átta og þar á meðal dótturina Valgerði árið 1916. Einar bjó ásamt fjölskyldu sinni í 18 ár í Kanada en í kjölfar andláts Guðríðar fluttist hann aftur heim til Íslands með börnin.

Hér fylgja minningarbrot Valgerðar frá því hún bjó í Kanada.

Minningarbrot frá Gimli.

Valgerður E. Vestmann. Fædd í Gimli 4.11.1916. Lést á Akranesi 1.4.2009.

Leikir og fl.

Fimm af börnum Einars Bjarnasonar Vestmann og Guðríðar Nikulásdóttur
Fimm af börnum Einars Bjarnasonar Vestmann og Guðríðar Nikulásdóttur. Daníel, Nikulás, Valgerður, Einar og Ingibjörg.

Margt var gert í frímínútum í skólanum. Við stúlkurnar höfðum okkar eigin fótbolta og var mikið æft. Stundum hörkuleikir. Svo var stundum verið í baseball (hornabolta). Þá var nú sippubandið notað, stundum eitt band eða tvö sem var meiri vandi að stökkva inn í hringinn. Við stúlkurnar lékum flest sem strákarnir léku. Eitt var Dibbs, hringur markaður á gólf eða á jörðina úti. Létum smá kúlur allavega litar í hringinn og höfðum helst eina stærri glerkúlu til þess að skjóta á þær í hringnum. Litlu leirkúlurnar voru mjög ódýrar. Regla var að við áttum þær sem okkur tókst að skjóta úr hringnum. Margt fleira var gert sér til gamans. Hockey var mjög vinsæll leikur en aðallega leikinn af karlmönnum, aðrir æfðu sig bara í að skauta. Við gátum alltaf gert eitthvað til gamans, leiki o.fl. Svo kom útvarp hjá vinum okkar þá fengum við að að hlusta stundum. Það var mjög spennandi að leita að tónlist og fleira efni. Stundum fengum við að fara í bíó. Ég man eftir að ég sá tvær stórmyndir önnur hét Ben Hur. Svo voru haldin grímuböll eins og á strákakvöldinu 31. okt., þá var margt brallað helst hjá strákunum og stærri krökkum.

Canada

Vestmann fjölskyldan
Vestmann fjölskyldan.

Eitt man ég þegar við áttum heima í Winnipeg – Þá höfum við verið 5 systkini, við fengum öll myslingana, en urðum ekki mjög veik. Þetta hefur verið um sumar. Þegar svona veiki var á ferðinni, þá var sett spjald á útidyrnar með nafni veikinnar, líkt og við værum í sóttkví. Svo kom ávaxtasali og hrópaði ávextir til sölu og taldi hvað hann væri með. Hann ók um göturnar á kerru með hest fyrir. Ef einhver vildi kaupa ávexti þá var kallað í hann, hann fór hægt um götur. Mamma keypti banana o.fl. handa okkur. Ég man ekki hvort þessir sölumenn voru á ferðinni einu sinni eða oftar í viku. Það var alltaf gaman þegar þeir voru á ferðinni.

Svo voru aðrir karlar sem fóru um göturnar með hestvagna. Þeir söfnuðu flöskum og gömlum fötum. Þá hrópuðu þeir hátt „old rags and bottles“ (gömul föt og flöskur). Ef einhver vildi láta eitthvað, þá komu þeir og sóttu það og borguðu fyrir og prúttuðu, þeir vildu helst fá allt fyrir lítið. Þetta voru nokkurs konar rusla karlar. Svo fóru þeir með draslið og seldu. Okkur krökkunum þótti gaman að þessu.

Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar