Jón Pálmi Jónsson

Alla jafna er talað um að tímabil vesturferða hafi verið frá 1870 til 1914. Meginástæður þess að fólk tók sig upp og flutti í óvissuna vestur um haf var von um betra líf en efnahagur hafði verið erfiður á Íslandi á seinni hluta 19. aldar eftir gos og langvarandi kuldatíð.

Jón Pálmi Jónsson flutti til Ameríku uppúr  1916 en af allt öðrum ástæðum. Haustið eftir að hinir síðustu eiginlegu vesturfarar kvöddu föðurlandið árið 1914 kom upp peningafölsunarmál á Íslandi. Einn af forsprökkunum reyndist vera Jón Pálmi Jónsson ljósmyndasmiður á  Sauðárkróki. Eftir nokkra dvöl í gæsluvarðhaldi var Jóni sleppt gegn tryggingu, en vorið 1915 hverfur hann og er í felum fram á sumar. Þá tekst Jóni, á ævintýralegan hátt, að komast til Siglufjarðar og þaðan til Noregs. Um tíma starfaði hann í Noregi sem ljósmyndari undir nafninu A. Hansen. Líklega fór hann til Kaupmannahafnar í kringum 1916 og flutti svo þaðan til Ameríku „… og varð þar kunnur maður fyrir að tefla kappskák við skákmeistara Ameríku.“ Mikill ævintýrablær er á frásögnum um Jón og er ekki laust við að votta megi fyrir aðdáun á manninum. Hann var sagður vel gerður og kunnur sem glímumaður, skákmaður og hagyrðingur. Hér er dæmi um eina vísu eftir Jón Pálma:

Einn um grundu veg ég vel,
við það lund mín hlýnar.
Bjarkar undir blöðum fel
bestu stundir mínar.

Um heimildirnar

Ljósmyndin af Jóni Pálma er ein af fjölmörgum ljósmyndum sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Myndin er tekin á  ljósmyndastofu Jóns Pálma á Sauðárkróki og eru nokkrar myndir merktar honum varðveittar á safninu. Lausavísuna má svo finna í vísnasafni Sigurjóns Sigtryggssonar sem ásamt fleirum vísnasöfnum er varðveitt á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og er aðgengilegar á vefnum http://bragi.info/skag/. Finna má umfjöllun um peningafölsunarmálið í dagblöðunum Vestra, Norðlendingi og Vísi í nóvember 1914. Um flótta Jóns Pálma var skrifuð grein í Skagfirðingabók, 22. árgangi, 1993.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga