Í Ljósmyndasafni Austurlands, sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Austfirðinga, eru nokkrir tugir ljósmynda sem teknar eru í Vesturheimi. Eru þær flestar teknar á ljósmyndastofum og sýna spariklætt og hátíðlegt fólk. Það má því segja að myndirnar tvær sem hér birtast séu undantekning  frá hefðinni  því að þær eru teknar úti við. Sýnir önnur feðginin Jón Hallgrímsson og dóttur hans Guðrúnu sumarklædd en hin Jón haldandi um taumana á uxaæki sínu. Ljósklædda stúlkan er Guðrún. Aðrir eru ekki nafngreindir. Myndirnar eru líklega teknar á öðrum áratug síðustu aldar á býli fjölskyldunnar, annað hvort í Minneota eða í Roseaubyggð í Minnesota.

Jón Hallgrímsson fæddist á Vakurstöðum í Vopnafirði 1857, kona hans hét Sigríður Guðvaldsdóttir  fædd á Hámundarstöðum í Vopnafirði 1868. Árið 1903 flytja þau til Ameríku með 7 börn sín á aldrinum 1 til 14 ára. Þá voru þau hjón búandi á Torfastöðum í Vopnafirði, landmikilli vildisjörð með hlunnindi af laxi og silungi og hafði Jón með höndum embætti hreppsstjóra. Verður ekki séð að efnaleysi hafi rekið þau til vesturferðar. Ætla má því að það hafi vegið þungt þegar ákvörðun var tekin um búferlaflutninga að foreldarar Sigríðar, Guðvaldur  Jónsson og Kristín Þorgrímsdóttir, frá Hámundarstöðum í Vopnafirði, höfðu flutt vestur með fjölskyldu sína 1888. Settust þau að í Bandaríkunum, fyrst í Norður Dakota en síðar í Roseaubyggð í Minnesota þar sem þau bjuggu á Hámundarstöðum. Á þessum slóðum var vina og frænda að leita, en Vopnfirðingar og Jökuldælingar  höfðu margir sest þar að og vegnað vel.

Jón Hallgrímsson á uxaæki sínu
Jón Hallgrímsson á uxaæki sínu. Ljósklædda stúlkan er Guðrún dóttir hans. Aðrir eru ekki nafngreindir.

Í blöðum og tímaritum vestan hafs segir fátt af Jóni og Sigríði. Í minningargrein um Jón son þeirra, sem dó 1929, kemur fram að þau hjónin hafi búið fyrst í Minneota en flutt sig til foreldra Sigríðar í Hámundarstaði. Síðan lá leið þeirra aftur til Minneota og þar dó Jón 1917. Eftir það bjó Sigríður með Jóni syni sínum en flutti eftir lát hans til St. Paul þar sem 3 dætur hennar höfðu sest að og þar andaðist hún árið 1950.

Myndirnar eru úr safni Margrétar Eggertsdóttur frá Ljótsstöðum sem afhent var safninu 1994.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga / Arndís Þorvaldsdóttir