Eiríkur Jóhannsson fór til Vesturheims árið 1891 ásamt konu sinni Ólöfu Ingibjörgu Ingólfsdóttur og þremur börnum þeirra. Þau áttu áður heima í Gilkoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Eiríkur ritaði bréfin, sem hér er tekið mið af, til Jóhanns bróður síns.

Í fyrstu bréfunum má lesa ferðasögu frá Sauðárkróki til Skotlands og frá Skotlandi til Ameríku. Hrifnæm frásögn Eiríks af dvölinni í Skotlandi ber vott um eftirtektarsemi og ritfærni hans. Fjallar Eiríkur um skrautlegar byggingar, „fegurð í ríki náttúrunnar“, „skrúðgræn, himingnæfandi tré“ og „akra í blóma“.

Fyrsta ár þeirra í Ameríku gengur upp og niður og skiptist á von og kvíði. Þau koma sér fyrir í Winnipeg, en erfitt reynist að fá vinnu fyrstu sumarmánuðina, en er nær dregur hausti fær Eiríkur loks vinnu í Norður-Dakota við uppskeru. Hann lætur vel af sér í fyrstu, eða þangað til fimbulfrostin skella á. Það eru helstu óþægindi hans, en kuldinn og veikindi minnka vinnuafköst og þar með tekjur.

En börnin virðast ánægð, ganga í skóla og finnst Eiríki það forréttindi. Sem barn hefði hann sjálfur viljað fá þá menntun sem börn hans hljóta í hinu nýja landi.

Bréf Eiríks Jóhannssonar
Bréf Eiríks Jóhannssonar.

Í bréfi sem hann ritar 1. ágúst 1891, á Íslendingadeginum ytra, talar hann enn um rysjótt veðurfar og erfiðleika í sambandi við vinnu í þannig tíðarfari. Við bætist verkalýðsbarátta landa hans, sem veldur því að þeir missa vinnu fyrstu sumarmánuðina. Hagur vænkast um síðir, Eiríkur byggir sig og fjölskylduna smátt og smátt upp og verður að lokum sjálfstæður bóndi í nýju landi.

Heimildir

  • Bréf Eiríks eru varðveitt á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, HSk. 856, 4to. Bréfin ná yfir tímabilið 1891-1929, en hér er tekið mið af fyrsta ári Eiríks í Vesturheimi.
  • Þáttur er um Eirík Jóhannsson og konu hans Ólöfu Ingibjörgu Ingólfsdóttur í Skagfirskum æviskrám 1850-1890 IV.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga