Þriðjudaginn 5. júní voru úttektarmenn hreppsins komnir í Syðri-Villingadal til þess að taka út og meta til álags hús á jörðinni. Á hverju ári voru ábúendaskipti á nokkrum jörðum í hreppnum og þá voru opinberir embættismenn kvaddir til að kíkja á hús og jarðnæði. Það voru óvenju margir sem voru að breyta sínum högum þetta árið.

29. maí, úttekt á Þormóðsstöðum, en ábúandinn þar var að flytja í Hlíðarhaga enda ábúendur þar að flytja til Ameríku.

5. júní, úttekt í Syðri-Villingadal, bóndinn þar Jóhann Pétur Árnason, kona hans Dótóthea Abrahamsdóttir og María dóttir þeirra voru að flytja til Ameríku.

14. júní, úttekt í Hlíðarhaga. Ekkjan Friðrika Kristjana Jónsdóttir ætlaði að flytja vestur um haf ásamt sonum sínum Kristjáni og Guðjóni Abrahamssonum.  Kristján var ekkjumaður, en dóttir hans Jóhanna Kristjánsdóttir fór með þeim vestur.

15. júní, úttekt í Ytra-Dalsgerði. Bóndinn þar var að hætta búskap.

16. júní, úttekt í Kambfelli. Einar Jóhannesson bóndi og kona hans Guðrún Abrahamsdóttir ætluðu að freista gæfunnar í Ameríku. Með þeim fóru einnig dæturnar Þórunn, Aðalbjörg og Helga.

18. júní, úttekt á Hálsi. Fólkið þar var að hætta búskap, það var á leiðinni til Ameríku. Þetta voru Jón Abrahamsson og kona hans Anna Stefánsdóttir og svo fjögur börn þeirra, Stefán, Friðrika, Kristín og Anna Soffía.

28. júní, úttekt í Litla-Dal. Þar var tvíbýli en báðar fjölskyldurnar voru á leiðinni vestur. Þetta voru annars vegar Jón Þórðarson bóndi, kona hans María Abrahamsdóttir og dætur þeirra Friðrika og  Aðalbjörg[1]. Hins vegar voru það Jóhann Abrahamsson og kona hans Aðalbjörg Jónsdóttir og synirnir Vigfús Þórðarson (sonur hennar) og Kristinn Jóhannsson (sonur hans). Með þeim fór einnig  vinnukonan Sigurlaug Þóranna Guðmundsdóttir.

6. júlí, úttekt á Strjúgsá. Bóndinn þar var að flytja í Kambfell, fólkið sem þar bjó var á leiðinni til Ameríku.

7. júlí, úttekt á Arnarstöðum. Bóndinn þar flutti í Litla-Dal, fólkið þar fór til Ameríku.

8. október, úttekt í Seljahlíð. Fólkið þar fluttist í Velli.

Alls fóru 38 úr Saurbæjarhreppi til Ameríku árið 1883. Aðrir sem fóru og ekki hafa verið nefndir eru:

  • Frá Hvassafelli: Hannes Gíslason, vinnumaður.
  • Frá Stóra-Dal: Jóhannes Bjarnason bóndi, Lilja Daníelsdóttir kona hans og börn þeirra Guðrún Rósa, Halldóra, Þórunn og Pálmi.  Einnig vinnumennirnir Jóhannes Bjarnason og Bjarni Bjarnason.
  • Frá Ysta-Gerði: Jóhannes Jóhannsson bóndi og kona hans Guðrún Halldórsdóttir.

Heimildir

  • H-11/9  Saurbæjarhreppur. Uppskrifta- uppboðs og úttektarbók 1880-1889.
  • Ábúenda- og jarðatal Stefáns Aðalsteinssonar (ópentað, frumrit varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri).

_____________

[1] Samkvæmt farþegalistum fór Jón Jónsson sonur þeirra einnig með, en hann lést áður en til þess kom, þ.e. 13. maí 1883.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri