Þorsteinn Þorsteinsson smiður og þjóðsagnasafnari var fæddur 1. des. 1825 á Ytri-Másstöðum í Skíðadal. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson og Guðrún Þorkelsdóttir. Þorsteinn yngri bjó á ýmsum bæjum í Svarfaðardal en þó lengst af á Upsum og var kenndur við þann stað. Hann brá búskap 1874 og vann eftir það við smíðar enda lærður snikkari og hafði unnið við það meðfram búskap og útgerð. Hann hneigðist snemma til fræðimennsku og safnaði alls kyns fróðleik t.d. þjóðsögum og gömlum handritum. Hann flutti til Vesturheims árið 1889 en afhenti Hinu íslenska bókmenntafélagi allt sitt handrita og þjóðfræðisafn áður en hann hélt úr landi. Safn hans er nú varðveitt á Landsbókasafninu. Þorsteinn bjó í Winnipeg og lést þar 22. okt. 1912.
Þorsteinn Þ. Þorsteinsson skáld og rithöfundur var sonur Þorsteins Þorsteinssonar og Aldísar Eiríksdóttur frá Uppsölum í Svarfaðardal. Þorsteinn var fæddur að Uppsölum 11. nóvember 1879. Hann var alinn upp að Syðra-Hvarfi af hjónunum Jóni Kristjánssyni og Dagbjörtu Gunnlaugsdóttur. Hann flutti vestur um haf 1901 og átti heima í Winnipeg. Hann var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Rannveig Jónsdóttir og áttu þau tvo syni, Þorstein og Jón. Síðari kona Þorsteins var Goðmunda Haraldsdóttir. Þau voru barnlaus. Þorsteinn lifði báðar konur sínar og syni, og á enga afkomendur á lífi svo vitað sé. Þekktastur var hann fyrir Sögur Íslendinga í Vesturheimi. Í Héraðsskjalasafni Svarfdæla á Dalvík eru fjölmörg handrit eftir hann. Einnig var hann liðtækur og fjölvirkur teiknari og á safnið nokkrar teikningar eftir hann. Þorsteinn andaðist á Gimli í Kanada 23. desember 1955. Árið 1956 var aska hans og Goðmundu konu hans flutt heim til Íslands og jarðsett að Völlum í Svarfaðardal 27. maí 1956, í leiði Dagbjartar fóstru sinnar.
Heimildir
- Stefán Aðalsteinsson (1978) Svarfdælingar, seinna bindi. Reykjavík, Iðunn.
Héraðsskjalasafn Svarfdæla
Comments by benedikt