Meðal viðbragða stjórnvalda í Evrópu við auknum fólksflutningum til Vesturheims á 19. öld var að setja löggjöf og koma á eftirliti til að tryggja réttindi og aðbúnað vesturfara. Á Norðurlöndum var slík löggjöf sett á árunum 1863-1872. Þess háttar löggjöf var ekki fyrir hendi á Íslandi þegar Kanadaferðir hófust fyrir alvöru 1873-1874. Engu að síður lagði Landshöfðingi fyrir amtmenn og sýslumenn að líta eftir starfi umboðsmanna Ameríkuferða og taka saman skýrslur um fjölda útflytjenda og fyrirkomulag ferðanna. Útflutningslög í anda dönsku og norsku laganna voru síðan samþykkt á Alþingi í ársbyrjun 1876. Í lögunum var m.a. kveðið á um að umboðsmenn þyrftu að fá sérstakt starfsleyfi, þeim var gert skylt að gera skriflega samninga við farþega sína sem sýslumenn áttu síðan að staðfesta og halda eftir afriti. Þá skyldu sýslumenn einnig hafa eftirlit með stærð og búnaði skipa og heilbrigði farþega og áhafnar.

Umboðsmenn
Umboðsmenn (skjal): Skipafélögin sem seldu ferðir frá Evrópu til N-Ameríku höfðu umboðsmenn í hverju landi. Einn umsvifamesti umboðsmaðurinn á Íslandi var Sigfús Eymundsson, bóksali og ljósmyndari. Sigfús hafði á sínum snærum þétt riðið net sölumanna (undiragenta) um land allt, en helsta verkefni þeirra var að komast í tengsl við hugsanlega Ameríkufara og skrá þá til farar. Árið 1891 störfuðu 20 sölumenn fyrir Sigfús og eins og sjá má af meðfylgjandi mynd bættist einn sölumaður við hópinn ári síðar, Thor nokkur Jensen í Borgarnesi. (ÞÍ. Landshöfðingi. N.J. 1897 N. nr. 93).

Í skjalasöfnum sýslumanna og Landshöfðingja eru varðveitt skjöl sem beint eiga rætur sínar að rekja til útflutningslaganna 1876 og því eftirliti og regluverki sem þá var komið á fót. Skjöl þessi eru hryggjarstykki Vesturfararannsókna.

Samningur
Samningur (skjal): Hér má sjá dæmi um vesturfarasamning frá árinu 1892 en í útflutningslögunum 1876 var kveðið á um að gera þyrfti löglegan farsamning á þar til gerð prentuð eyðublöð. Í samningunum koma fram persónulegar upplýsingar um farþegana og staðlaðar upplýsingar um ferðatilhögun (ÞÍ. Sýslumaðurinn í N-Múlasýslu. OB/2).

Heimild

Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs. Vesturfarir frá Íslandi 1870-1914 (Reykjavík 2003).

Þjóðskjalasafn Íslands