Fyrstu Íslendingarnir sem fluttu vestur um haf  fóru frá Vestmannaeyjum um miðja 19. öld.  Fyrstu útflytjendurnir voru hjónin Benedikt Hannesson (1818-1860) og Ragnhildur Stefánsdóttir (1817-1875) frá Kastala, en þau skírðust til mormónatrúar árið 1851 og fluttu til Danmerkur sumarið 1952, þar sem þau bjuggu í nokkur ár, sennilega til að safna fyrir ferðinni yfir Atlantshafið. Ragnhildur er talin komin til Utah um 1860, en Benedikt lést í Nebraska á leiðinni.

F.v.: Margrét Gísladóttir, hjónin Halldóra Árnadóttir og Gísli Einarsson Bjarnason og lengst til hægri er Guðrún Halldórsdóttir, stjúpdóttir Lofts Jónssonar
F.v.: Margrét Gísladóttir, hjónin Halldóra Árnadóttir og Gísli Einarsson Bjarnason og lengst til hægri er Guðrún Halldórsdóttir, stjúpdóttir Lofts Jónssonar.

Fyrstu íslensku landnemarnir í Norður-Ameríku voru aftur á móti hjónin Samúel Bjarnason (1823-1890), mormónaprestur og Margrét Gísladóttir  (1822-1914) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, en þau settust að í Spanish Fork í Utah. Þau lögðu upp í langferðina frá Vestmannaeyjum 1854, til Kaupmannahafnar, þaðan til Englands, New York og loks landveginn til Utah, en þangað komu þau 1855. Með þeim í för voru Helga Jónsdóttir (1814-) og Guðmundur Guðmundsson gullsmiður og mormónatrúboði (1825-1883) en hann varð eftir í Kaupmannahöfn, í bili.

Árið 1857 er  merkisár í sögu flutninga Íslendinga vestur um haf. Þá fór fyrsti eiginlegi hópurinn frá Íslandi (Vestmannaeyjum), alls 13 manns samkvæmt  kirkjubókum Vestmannaeyja, undir forystu Lofts Jónssonar, frá Þorlaugargerði (1814-1874). Eftir þetta varð hlé á vesturferðunum til ársins 1874 þegar þær hófust á ný og þá af alvöru, aðallega til Kanada.

En, það  fluttu ekki allir Vesturfararnir endanlega til Ameríku. Héðan frá Vestmannaeyjum fór Árni Árnason eldri, frá Vilborgarstöðum, síðar frá Grund (1870-1924)  vestur um haf áleiðis til Utah í Bandaríkjunum. Ári seinna fór verðandi kona hans, Jóhanna Lárusdóttir frá Búastöðum (1868-1953) á eftir honum, með dóttur þeirra Auðbjörgu Ástrósu (1892-1894) þá kornabarn. Fyrir í Utah var móðir Árna, Vigdís Jónsdóttir Evanson (1845-1925), frá Vilborgarstöðum og dætur hennar, Ingveldur Árnadóttir og Hildur Árnadóttir, þær voru mormónar. Í Utah var líka fyrir systir Jóhönnu, Steinvör Lárusdóttir frá Búastöðum  (1866-1942), en hún bjó fyrst eftir komuna vestur í Utah, en flutti til Blaine í Washingtonríki um aldamótin 1900 og bjó þar með eiginmanni og börnum til dauðadags. Steinvör kom aldrei aftur til Íslands.

Auðbjörg Ástrós dó tveggja ára gömul í Utah árið 1894. Tveimur árum seinna fæddist þeim Jóhönnu og Árna, sonur, Lárus Georg (1896-1967) síðar bifreiðarstjóri í Vestmannaeyjum. Ungu hjónin undu sér ekki innan um mormónana í Utah og jafnframt sótti að þeim óyndi eftir lát dóttur þeirra og fráfall föður Jóhönnu, Lárusar Jónssonar hreppstjóra, í sjóslysi við Eyjar árið 1895. Þetta varð allt til þess að þau fóru aftur til Íslands strax 1898 og bjuggu síðan í Eyjum til dauðadags. Stuttu fyrir heimferðina virðist Árni hafa fengið bandarískan ríkisborgararétt, og jafnframt var gefið út skírnarvottorð á nafn Lárusar Georgs, sonar hans. Þessi skjöl eru nú varðveitt á Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja. Þar er einnig varðveitt handrit af ítarlegu sendibréfi sem Árni skrifaði Jóhönnu frá Utah, áður en hún lagði af stað vestur um haf. Bréfið er nokkurs konar ferðaleiðbeiningar handa henni og lýsir vel þeim erfiðleikum sem urðu á vegi innflytjenda til Ameríku.

Samkvæmt Húsvitjunarbók Vestmannaeyja 1849-1852 voru íbúar í Vestmannaeyjum 404 árið 1850. Á árunum 1852-1914 fluttu 299 Vestmannaeyingar vestur um haf, bæði til Bandaríkanna og Kanada. Þetta hefur verið mikil blóðtaka fyrir lítið, fátækt samfélag og tölurnar sýna greinilega hversu miklum erfiðleikum þetta hefur valdið litlu eyjunni sunnan við Ísland og fólkinu þar sem stóð í sífelldri baráttu upp á líf og dauða.

Fólksflutningar frá Vestmannaeyjum til Norður-Ameríku 1852-1914.
Fólksflutningar frá Vestmannaeyjum til Norður-Ameríku 1852-1914.

En nú hefur tekist að koma á tengslum við afkomendur þessa fólks fyrir tilstuðlan Kára Bjarnasonar forstöðumanns Safnahúss Vestmannaeyja og Dr. Fred Woods, prófessors við Brigham Young University í Provo í Utah, sem hafa mikið rannsakað sögu afkomenda Vesturfaranna til Utah. Áformað er að halda þriggja daga ráðstefnu í Utah í september á næsta ári þar sem afkomendur vesturfaranna (Utah faranna), bærinn Spanish Fork,  Vestmannaeyingar og Vestmannaeyjabær munu vonandi nota tækifærið og rækta betur tengslin sem greinilega eru til staðar þeirra  á milli. Til undirbúnings ráðstefnunni er von á bæjarstjóranum í Spanish Fork, Steve Leifsson og Dr. Fred Woods til Eyja 10. – 11. nóvember nk. Þá er ætlunin að kynna ráðstefnuna á hádegisfundi (súpufundi) og jafnframt væntanlega hópferð frá Íslandi til Utah í september á næsta ári. Í tilefni heimsóknarinnar og norræna skjaladagsins verður sett upp sýning á skjölum, ljósmyndum og munum tengdum Vesturförunum frá Eyjum í Einarsstofu í Safnahúsinu og verður hún opin á opnunartíma hússins út nóvembermánuð.

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja