Guðrún Sumarrós Guðmundsdóttir fæddist 11. september 1900 í Öxnafelli í Eyjafirði. Hún var annað barn foreldra sinna, þeirra Rósu Sigríðar Jónsdóttur og Guðmundar Þorvaldssonar.

Rósa fæddist á Akureyri 1870. Foreldrar hennar, Jón Jónsson járnsmiður og Þórunn Kristjánsdóttir, áttu fimm börn og voru bláfátæk. Þegar heimilisföðurnum bauðst að fara í póstferð austur á land greip hann tækifærið fegins hendi, en í ferðinni lenti hann í hrakningum og lá rúmfastur vikum saman fjarri heimilinu. Litla björg var að hafa heima en Þórunn leitaði til bæjarins og fékk daufar undirtektir.  Kom að því að ekkert var lengur að hafa. Bað hún þá ættingja og vini að taka að sér eldri börnin, en lagðist með yngsta barnið í rekkju. Þegar að var komið var móðirin örend í rúminu en dóttirin huggaði sig við að sjúga þurr brjóstin. Þetta var í mars 1873.

Eftir þetta var börnunum komið fyrir á bæjum í Eyjafirði, þar sem þau ólust upp en þau fluttust öll seinna til Vesturheims, nema Rósa.  Í nýjum heimkynnum vegnaði systkinum ágætlega, en þekktast þessara systkina var Kristján Níels Júlíus skáld (Káinn).

Guðmundur Þorvaldsson var sunnan úr Landeyjunum. Hann var í vinnumennsku í Melgerði árið 1885 en þar var einnig vinnukonan Þuríður Friðfinnsdóttir og árið eftir fæddist þeim dóttirin María. Leiðir þeirra lágu ekki meira saman en Guðmundur fór í vinnumennsku í Ytra-Dalsgerði.  Þar bjó ekkjan Guðrún Bergrós Oddsdóttir og svo fór að þau giftust 1890. Guðrún og Guðmundur bjuggu í Ytra-Dalsgerði til 1894 en fóru svo í vinnumennsku í Gnúpufell og þar lést Guðrún árið 1897.

Rósa var á ýmsum bæjum í Saurbæjarhreppi sem barn en þegar hún giftist Guðmundi árið 1899 var hún vinnukona í Æsustaðagerði. Rósa og Guðmundur voru í vinnumennsku næstu árin, oftast sitt á hvorum bænum. Þau eignuðust fjögur börn, Kára (f. 1899), Guðrúnu Sumarrós (f. 1900), Steinunni Ingibjörgu (f. 1902) og Guðmund (f. 1907). Þegar Guðmundur fæddist var faðirinn látinn. Eftir það var Rósa um tíma í vinnumennsku í Gnúpufelli og seinna bústýra í Seljahlíð. Hún lést á Helgastöðum 1953, þar sem Guðmundur sonur hennar bjó.

Kári var sem barn í Æsustaðagerði en seinna bóndi, lengst í Klúkum. Guðmundur var sá eini af systkinunum sem var eitthvað með móður sinni sem barn en hann varð seinna bóndi á Helgastöðum.

Leið systranna varð önnur en bræðranna. Steinunn fór í fóstur til hjónanna á Kolgrímastöðum og fluttist síðar með þeim til Akureyrar. Guðrún Sumarrós var víða í hreppnum en lengst í Hrísum. Árið 1913 urðu þáttaskil í lífi systranna en þá fluttu þær vestur um haf. Þær urðu samferða frændfólki sínu sem voru að flytja til Vesturheims í annað sinn. Steinunn ólst upp hjá þessu frændfólki en Guðrún fór til móðursystur sinnar í Gimli.

Heimildir

  • Benjamín Kristjánsson, 1970: Eyfirðingabók II.  Sögur frá umliðnum öldum, bls. 173.
  • Vestur-Íslenskar æviskrár I. bindi bls. 56-7, II. bindi bls. 82 og III. bindi bls. 319-322.
  • Ábúenda- og jarðatal Stefáns Aðalsteinssonar (óprentað, frumrit varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri).
  • Kirkjubækur Miklagarðs, Saurbæjar, Möðruvalla og Grundarþinga.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri