Á árunum 1870 til 1914 fluttust þúsundir Íslendinga búferlum til Vesturheims, stærsti hlutinn til Kanada. Af sendibréfum þeirra má ráða að þeir fylgdust vel með því sem var að gerast heima á Íslandi og héldu áfram tengslum áratugum síðar, til dæmis með því að fá send íslensk blöð.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir hluta af skjalasafni Benedikts Sveinssonar (1877-1954), sem gerði ótrúlega margt á lífsleið sinni, meðal annars var hann bæjarfulltrúi í Reykjavík, alþingismaður, forseti neðri deildar þingsins, bankastjóri, ritstjóri Ingólfs (1905-1909 og 1913-1915) og síðar Fjallkonunnar, Þjóðarinnar o.fl.

Skjalasafn Benedikts er hluti af einkaskjalasafni sonar hans Bjarna Benediktssonar sem Borgarskjalasafn fékk til varðveislu árið 2008. Það er fjölbreytt og áhugavert en í því er fjöldi sendibréfa frá Vestur-Íslendingum í Kanada og víðar í Vesturheimi.

Hugurinn heima á Íslandi eftir 28 ár í Kanada

Eftir 28 ára veru Vestanhafs er hugur Þorláks Björnssonar enn heima á Íslandi, eins og kemur fram í bréfi hans frá 1907 til Benedikts ritstjóra, þar sem hann sendir honum greiðslu fyrir blaðið Ingólf. Þorlákur veltir fyrir sér háu verði á jörðum og lóðum á Íslandi og hefur áhyggjur af því að fasteignir muni lenda í fárra manna höndum, þeim fátæku muni fjölga og þeir eigi erfiðara uppdráttar. Þorlákur biður ritstjórann um að láta sig vita hvenær konungurinn komi til Íslands um sumarið. Þar að auki óskar Þorlákur eftir því að Benedikt útvegi honum „Íslenska Biblíu – ekki samt sýðustu Britísku útgáfuna heldur þá þar á undan, (sem var, ef jeg man rjétt „Steins Biblía“. Það voru greinilega ófá og fjölbreytt viðvik sem ritstjórinn þurfti að útrétta fyrir áskrifendur sínar. Engar fregnir eru af því hvernig gekk að finna „Steins Biblíu“.

Brýnir landann í sjálfstæðisbaráttunni

Bréf G. Gunnarssonar til Benedikts ritstjóra árið 1908
Bréf G. Gunnarssonar til Benedikts ritstjóra árið 1908.

G. Gunnarsson skrifar bréf til Benedikts ritstjóra árið 1908 og brýnir ritstjórann og þjóðina í sjálfstæðisbaráttunni og segist vilja sjá „Íslensku þjóðina segja skilið við Dani og í öllum bænum að láta ekkert af réttindum okkar af hendi.“

„… fúsir að flytja heim, en vilja fá niðursett fargjald.“

A. J. Johnson frá  Winnipeg þakkar Benedikti ritstjóra fyrir nýlega meðtekið bréf og sendir honum nokkrar línur í nóvember 1908 til birtingar í Ingólfi. Johnson gefur Íslendingum góð ráð í bréfinu og segir meðal annars: „Það er sannleikur að stjórnarflokkinn þarf að uppræta með öllu, hann er orðinn banvænlega sýktur af ódrengskap og ræktarleysi við land og þjóð.“ og  „..að best væri að reka ríkisstjórnina frá völdum sem allra fyrst.“

Johnson telur að fjöldi manna í Vesturheimi séu fúsir að flytja heim alfarið, en þeir vilja fá „niðursett fargjald“. Johnson spyr Benedikt hvernig honum lítist á „…að hann hafi í hyggju að biðja þingið um styrk á næstu fjárhagsáætlun til að styðja að innflutningi Vestur-Ísl.“

Johnson kveðst „… hafa átt viðtal og bréfaskriftir við fjölda manna, sem fúsir vildu flytja heim alfarið, en þeir vilja fá niðursett fargjald og til þess álít ég að þingið ætti að veita dálitla peninga. Það gera allar þjóðir sem ant er um að fá fólk… Flest af því fólki sem ég hef átt viðtal  og bréfaskifti við um þetta er ungt fólk, einkum karlmenn, sem hafa hér unnið við jarðrækt, kunna að fara með allar vélar og hafa áhuga á því að útbreiða þekkingu á meðferð þeirra á Íslandi. Menn sem kunna jarðrækt eru einmitt mennirnir sem Ísland vantar langhelst…“ segir Johnson. Johnson heldur áfram og segir: „Ég er að hugsa um að semja bænaskrá til þingsins og láta fylgja henni afrit af bréfum þeim sem ég hef fengið frá mönnum hér.“

„Mér skyldi þykja mjög vænt um ef ég mætti senda þér beiðni, í þeirri von að þú komnir henni á framfæri til þingsins. Um sama leyti skrifa ég ýtarlega um þetta mál, og bið þig að sjálfsögðu fyrir það til birtingar.“

 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur / Jakobína Sveinsdóttir