Fjöldi vesturfara úr Húnavatnssýslu er samtals 1.360 en það lætur nærri að vera um 20% íbúa miðað við manntalið 1880, en íbúum hafði fækkað um 1.340 manns í manntalinu 1890 frá því þá, 545 úr vestursýslunni og 815 úr austursýslunni þar af 39 af Blönduósi.
Börn eins árs og yngri voru 81 sem fluttust vestur um haf og eitt fæddist á hafi úti.
Flestir voru þó á besta aldri en 40 manns voru 60 ára og eldri.
Elstur allra var Jakob Espólín fyrrum bóndi á Gunnsteinsstöðum í Langadal. Hann fór 79 ára árið 1907 frá Hólabaki en hafði áður farið vestur 1874 frá Stóra Búrfelli.
Jakob fæddist 11. febrúar 1828 á Ystu-Grund í Blönduhlíð, sonur Hákonar Jónssonar prests á Stóra Árskógi og konu hans Sigríðar Jónsdóttur.

Jakob ólst upp í foreldrahúsum og við fermingu 1843 fékk hann eftirfarandi vitnisburð frá föður sínum; „Rétt vel kunnandi, settur og dagfarsprúður, hefur lært allt kverið, smáa sem stóra stíl.“
Reisti sér bú á hluta jarðarinnar Frostastöðum 1853 og bjó þar til 1857, en fluttist þá vestur í Húnavatnssýslu og var húsmaður á ýmsum bæjum í Svínadal til 1874 er hann ákveður að flytjast vestur um haf.
1875 reisir hann sér nýbýlið Espihól á Nýja Íslandi og bjó þar til 1881 en flytur þá til Norður-Dakota og gerist landnámsmaður í Gardar, þar sem hann býr til 1904 að hann heldur heim og hyggst setjast hér að en undi ekki hag sínum og fluttist aftur vestur 1907 og deyr þar 1913 hjá dóttur sinni í Pembína.
Kona Jakobs var Rannveig Skúladóttir (1830-1918) frá Axlarhaga í Blönduhlíð og eignuðust þau 5 börn og komust 2 þeirra til fullorðinsára, Jón Magnús bóndi Gunnsteinsstöðum í Langadal og Sigríður kona Gunnlaugs Vigfússonar lögmanns í Pembina.
Elst kvenna Steinunn Eiríksdóttir fædd 1806, fyrrum húsfreyja í Hvammi í Mýrarsýslu, fór vestur 1882 og sögð þá 80 ára.
Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Comments by benedikt