Eftirfarandi kvæði er að finna í vasabók Konráðs Vilhjálmssonar frá Hafralæk (E-1422/15). Kvæðið er talið vera eftir Tómas Jónasson á Hróarsstöðum og að hann hafi samið það handa velgjörðarkonu sinni á Eyjardalsá í Bárðardal.

Sungið þegar Bárðdælingar, sem fluttu til Norður-Ameríku, fóru alfarnir frá Eyjardalsá.

Frændur og vinir! við förum að skilja
fáorða kveðju ég ber ykkur þá;
harmanna tölur ei tjáir að þylja
tökum því vel er ei sneitt verður hjá.
Áfram til sigurs, um ókomnar brautir.
ástkæru systkin! farið nú vel.
Sigrið með guðs aðstoð sérhverjar þrautir
sælli hans varðveislu ykkur ég fel.

Heill sé þeim ætíð! er ánauðar helsið
af sér með karlmennsku hlekkina sleit;
Meðskaptri löngun til frama og frelsis
fái hann svalað í hagsælda reit.
Ætla ég láanda engu manns barni,
er álengdar horfir í fjölskreyttan lund,
en ráfar í stormi á helköldu hjarni,
þó herði það ganginn að blómgaðri grund.

Ykkur þó tilsýndar öldu frá ljóni,
Ísland er horfið í báróttan sjá;
Ykkur þá byrgir hann fjöllin á fróni,
faldbúnu konuna minnist þið á.
Börnunum hennar þið búið í haginn,
brosandi síðar þeim takið á mót,
þegar þau koma – sem kemur á daginn
og hvíla hjá ykkur sinn veglúna fót.

Þó víkið burt héðan til vesturheims landa
og veljið þar bústað hjá framandi sveit –
ég vona þið verðið þó íslensk í anda,
ávallt og minnist á fornkveðin heit.
Í skarkala heimsins og háværum glaumi,
huginn oft reikar og missir sinn þrótt,
þó tímans þið hreyfist af hraðfara straumi
haldið samt stefnunni öruggt og rótt.

Áfram til sigurs, þið frumherjar fríðir!
Fram er nú stigið svo alvarlegt spor,
ykkar af dæmi það sannast um síðir,
safnast mun áhugi, framkvæmd og þor.
Þið munuð bera úr brautinni steina
og bæta þeim veginn er fengu hans þrá,
Veglegt er ísinn á undan að reyna
eftirför hinum er léttari þá.

Áfram til sigurs hinn framgjarni flokkur
friðar og hagsælda gangið þið slóð;
Skapastund segir nú skilið með okkur,
skarðið er höggvið í íslenska þjóð!
Hann einn er mannanna hlutföllum ræður.
hamingju krýni ykkur ætíð og nú
Áfram til sigurs, þið brottfarar bræður!
brynjist æ hugrekki manndáð og trú.

Tómas Jónasson

Héraðsskjalasafn Þingeyinga